Smávirkjanir

Verkfræðistofan Efla vann heildstæða frumúttekt 30 smávirkjunarkosta í Eyjafirði fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar. Úttektin fólst í kortlagningu og mati á vatnasviði virkjunarkosta, helstu kennistærðum virkjunar, líklegum umhverfisáhrifum og tengingu við dreifikerfið. Stuðst var við fyrri athuganir, rennslismælingar og aðgengilega kortagrunna og loftmyndir. Einnig var farin vettvangsferð til að meta helstu umhverfisáhrif og aðstæður til mannvirkjagerðar. Virkjunarkostir voru flokkaðir og tillögur að frekari athugunum lagðar fram.

Gerð er grein fyrir frumúttekt 30 smávirkjunarkosta í sveitarfélögunum Fjallabyggð, Hörgársveit, Akureyrarbæ, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi. Auk þess er yfirlit yfir 15 virkjunarkosti sem voru teknir út í Dalvíkurbyggð árið 2015. Ekki er á neinn hátt um tæmandi lista að ræða heldur voru valdir þeir virkjunarkostir sem teljast álitlegir. Athugunin fólst í heildstæðri úttekt; kortlagningu, mati á vatnasviði virkjunarkosta, helstu kennistærðum virkjana, líklegum umhverfisáhrifum og tengingu við dreifikerfið.

Virkjað rennsli var metið út frá áætluðu lágrennsli í ám þar sem tekið var tillit til mældra vatnasviða á svæðinu sem og úrkomulíkans. Fallhæð og vatnasvið voru metin út frá 5 m hæðarlínum í þeim sveitarfélögum sem hafa aðgang að slíkum gögnum en 20 m hæðarlínum annars staðar. Staðsetning inntaks var gróflega valin út frá hæðarlínum og loftmyndum nema í nokkrum tilfellum eftir athugun á staðnum. Við aflútreikninga var miðað við heildarnýtingu 0,75 þar sem tekið er tillit til falltaps í vatnsvegum og nýtingar í hverfli og rafala. Við orkuútreikninga var að jafnaði gert ráð fyrir nýtingartíma um 7.000 klst. af 8.760 klst. á ári. Aðstæður til mannvirkjagerðar og umhverfisáhrif voru metin út frá loftmyndum og vettvangsferð þar sem fyrst og fremst var litið til sýnileika virkjana, fossa í ám og áhrifa á landslag og þá sérstaklega frá þjóðvegi.Tengimöguleikar virkjana voru metnir í samráði við Rarik. Lagt var mat á hversu álitlegir virkjunarkostir væru út frá aðstæðum til mannvirkjanagerðar og umhverfisþátta. 

 

Getum við bætt síðuna?