Raforka

Landsnet vinnur nú að mati á umhverfisáhrifum 220 kV raflínu milli Akureyrar og Hólasands, svokallaðri Hólasandslínu 3. Einnig stendur yfir grunnvinna við 220 kV raflínu milli Blöndustöðvar og Akureyrar, Blöndulínu 3, og er stefnt á að sú vinna fari í umhverfismat og sama ferli og Hólasandslína 3 á næstunni. Framkvæmdirnar eru mikilvægar fyrir flutningskerfi landsins í heild sinni þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á suðversturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi. 

Norðurland verður með stöðugt og öflugt orkudreifikerfi þegar heildartenging, með 220 kV raflínu, er komin frá Blöndu og að Fljótsdal.

Markmiðið með Hólasandslínu 3 er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Með auknum stöðugleika minnka líkur á spennusveiflum í kerfinu, sem geta og hafa valdið tjóni á raftækjum notenda á landsbyggðinni.

Lagnaleiðin er 70-80 km, mislöng eftir valkostum. Hún er að mestu leyti fyrirhuguð samhliða Kröflulínu 1, en víkur frá henni í Eyjafirði og á Hólasandi. Greining hefur verið gerð á því hversu langa jarðstrengi megi leggja innan meginflutningskerfisins á grundvelli tæknilegra forsendna og er niðurstaðan fyrir Hólasandslínu 3 að hámarkslengd jarðstrengs geti verið um 12 km.

Markmiðið með Blöndulínu 3 er að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi svo það ráði betur við truflanir, auka hagkvæmni í orkuvinnslunni með samtengingu virkjanasvæða og þjóna allri uppbyggingu og núverandi starfsemi á Norður- og Austurlandi.

Áætluð lengd Blöndulínu 3 er um 107 km, innan fimm sveitarfélaga; Húnavatnshrepps, Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Akrahrepps, Hörgársveitar og Akureyrarkaupstaðar.

Getum við bætt síðuna?