Flug

Verkfræðistofan Efla vann skýrslu fyrir Eyþing um uppbyggingaráætlun fyrir Akureyrarflugvöll með það að markmiði að styrkja flugsamgöngur við Norðurland eystra. Með bættri aðstöðu gæti flugvöllurinn þjónað millilandaflugi og einnig sem varaflugvöllur. Áætlunin er unnin sem áhersluverkefni innan sóknaráætlunar Norðurlands eystra 2015-2019.

Gerð er grein fyrir helstu atriðum sem bæta þarf úr á Akureyrarflugvelli þannig að hann geti þjónað millilandaflugi og einnig sem varaflugvöllur. Fjallað er um uppsetningu á IFL aðflugsbúnaði sem nú er í gangi, stækkunarmöguleika núverandi flugstöðvar og flughlaða og framtíðar gervihnattarleiðsögu með EGNOS leiðréttingarkerfi. Lagt er mat á kostnað við þessar framkvæmdir og einnig er framkvæmdatími áætlaður. 

Ljóst er að uppsetningu á ILS aðflugsbúnaði verður ekki lokið fyrr en á árinu 2019 þar sem tími vegna áætlaðs sigs á jarðvegsfyllingu fyrir undirstöður búnaðarins er þar ráðandi tímafaktor. Samanlagður kostnaður framkvæmdarinnar er um 180 m.kr. 

Möguleiki er á að byggja nýja flugstöð og breyta núverandi byggingu fyrir um 1.477 m.kr., þar af er kostnaður við breytingar eldra húsnæðis um 247 m.kr. Byggingartími með breytingunum gæti verið að lágmarki um tvö ár. Þar inn spilar óvissa um jarðfræðieiginleika nýbyggingarsvæðisins, en hugsanlegur sigtími jarðversfyllingar mannvirkisins gæti einnig haft áhrif á heildarbyggingartímann. 

Heildarkostnaður við flughlöð er um 1.610 m.kr. (gróf áætlun) og eru framkvæmdir í byrjun bundnar við færslu á einstaka mannvirkjum sem þarf að færa og koma fyrir á nýjum stöðum þannig að framhald geti orðið á framgangi burðarlaga á nýu flughlaði. Heildartími framkvæmda við flughlöð er um þrjú ár. Þar af gæti ráðandi sigtími mannvirkja sem þarf að færa orðið um sex mánuðir.

Getum við bætt síðuna?