Meðalatvinnutekjur á Norðurlandi eystra 90% af landsmeðaltali

Heildaratvinnutekjur á Norðurlandi eystra árið 2018 námu 102 milljörðum króna og höfðu aukist um 3,1 milljarð frá árinu 2017 eða um 3,2%. Frá árinu 2008 hafa atvinnutekjur aukist á svæðinu um 17,7 milljarða eða um tæplega 21% sem er aðeins undir landsmeðaltali. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Byggðastofnunar um atvinnutekjur árin 2008-2019 eftir atvinnugreinum og landshlutum. Skýrslan byggir á gögnum sem fengin voru frá Hagstofu Íslands sem vann þau úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. 

Í skýrslunni kemur m.a. fram að meðalatvinnutekjur á Norðurlandi eystra voru um 90% af landsmeðaltali. Akureyri var á meðaltalinu en Eyjafjörður án Akureyrar heldur undir meðaltali landshlutans. Þingeyjarsýslurnar voru yfir meðaltali landshlutans sem er breyting frá árinu 2008 þegar meðaltekjurnar voru lægstar þar. Hlutfall atvinnutekna kvenna á Norðurlandi eystra var 38,2% árið 2018 sem er undir landsmeðaltali. Hlutfallið er heldur hærra á Akureyri en í Þingeyjarsýslum og í Eyjafirði án Akureyrar. 

Stærstu atvinnugreinarnar á svæðinu á árinu mældar í atvinnutekjum voru heilbrigðis- og félagsþjónustu og fræðslustarfsemi en þar á eftir komu iðnaður og mannvirkjagerð. Í Eyjafirði án Akureyrar var fiskvinnsla stærsta greinin og iðnaður næst stærstur og í Þingeyjarsýslum var mannvirkjagerð og iðnaður stærstur. Í skýrslunni segir að líklega sé það vegna framkvæmda við iðnaðaruppbyggingu á Bakka við Húsavík. 

Heildaratvinnutekjur á landinu öllu árið 2018 námu 1.316 milljörðum króna sem var aukning um tæplega 64 milljarða frá árinu 2017 eða sem nemur 4,9%. Frá 2008 hafa atvinnutekjur á landinu öllu aukist um 256 milljarða eða um 24%. Heildaratvinnutekjur jukust í öllum landshlutum nema á Austurlandi á tímabilinu 2008 til 2018 þar sem þær stóðu í stað. Í skýrslu Byggðastofnunar segir að skýringin sé að í upphafi tímabilsins hafi stórframkvæmdir vegna stóriðjuuppbyggingar enn verið í gangi á svæðinu. Mest var aukningin á Suðurnesjum þar sem atvinnutekjur jukust um tæplega 53%. Þá varð þriðjungsaukning á Suðurlandi og í kringum 20% aukning á höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi eystra og Vesturlandi. Fyrir utan Austurland var aukningin minnst á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, sitthvorum megin við 12%. 

Lestu skýrslu Byggðastofnunar hér.