Áratuga gamlir innviðir ógna öryggi Norðlendinga

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur lengi talað fyrir bættu raforkuöryggi á Norðurlandi. Eitt af aðalverkefnum þess frá árinu 2012 hefur verið að berjast fyrir uppbyggingu nýrrar byggðalínu en hún hefur mætt mikilli andstöðu ákveðinna hópa. Sérstaklega hefur ný byggðalína frá Blöndu til Eyjafjarðar mætt andstöðu en sá kafli er elsti hluti byggðalínunnar og orðinn mjög veikur.

Áhrif veðurofsans undanfarna daga hefur sýnt að nauðsynlegt er að ráðast í þessa uppbyggingu. Rafmagnsleysið hefur haft áhrif á fjarskipti, húshitun, atvinnurekstur og dæmi eru um að heilbrigðisstofnanir hafi verið án rafmagns í einhver tíma. Allt samfélagið er orðið háðara rafmagni en áður og vægi þess mun aukast á næstu árum með orkuskiptum í samgöngum. Innviðirnir verða því að vera í lagi og það hlýtur að vera forgangsatriði hjá stjórnvöldum að byggja meira öryggi inn í raforkukerfið, m.a. með öflugri burðarlínum. Flutningskerfið verður að vera þannig útbúið að fólk geti treyst því.

Úrelt byggðalínukerfi

Byggðalög við Eyjafjörð hafa um langt skeið búið við skert aðgengi að raforku vegna flutningstakmarkana í gömlu og úreltu byggðalínukerfi. Kerfið er orðið rúmlega 30 ára gamalt og elsti hluti þess, frá Skagafirði til Akureyrar, er 44 ára. Flutningsgetan er einungis 100 megavött sem er aðeins lítill hluti af þeim 2.757 megavöttum sem eru uppsett afl í landinu, eða 4%.

Kerfið getur ekki lengur afhent næga orku með öruggum hætti eða tekið við nýrri orku og því er ekkert svigrúm fyrir aukna rafmagnsnotkun. Óöryggið verður meira og meira sem árin líða og kerfið eldist. Vandamálið tengist ekki eingöngu Eyjafirði heldur stefnir í orkuskort víða um land á komandi áratugum við óbreytt ástand. Afleiðingarnar fyrir samfélagið við Eyjafjörð eru margvíslegar. Straumleysi er algengara, spennusveiflur tíðari, rafmagnstæki á heimilum skemmast og fyrirtæki verða fyrir beinu tjóni vegna stöðvunar framleiðslu og tjóns á búnaði. Tjónið hleypur á hundruðum milljóna króna og fer vaxandi.

Óþolandi andstaða við styrkingu innviða

Landsnet hefur verið með áform um uppbyggingu og styrkingu flutningskerfisins og hefur sett fram tillögur í kerfisáætlun. Allar miða þær að því að skila mikilli aukningu í stöðugleika raforku ásamt töluverðri getu til að flytja afl milli landshluta með stuttum línum samanborið við byggðalínuhringinn. Því miður hefur Landsnet hvorki komist lönd né strönd með áætlanir sínar. Ástæðan er fyrst og fremst vegna deilna ýmissa aðila um framkvæmdirnar, þ.e. hvar rafmagnslínurnar eiga að liggja.

Á meðan staðið er í kærumálum og deilum fyrir dómstólum um nauðsynlegar framkvæmdir til innviðauppbyggingar raforkukerfisins heldur byggðalínan áfram að eldast og orkuskortur í Eyjafirði að aukast. Atvinnuuppbygging og atvinnuþróun á svæðinu á sér enga framtíð við þessi skilyrði. Engir möguleikar eru til að ráðast í ný verkefni, stór eða smá, þar sem orkan er af skornum skammti eða er ekki til staðar. Stjórnvöld verða að grípa inní og stöðva þessa þróun því raforkukerfið snýst um þjóðaröryggi.

 

Katrín Sigurjónsdóttir

Formaður stjórnar AFE