Annað stærsta hagkerfi landsins sýnir jákvæða hagþróun

Samkvæmt nánast öllum efnahagslegum mælikvörðum er gott ástand í öðru stærsta hagkerfi landsins sem Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýslurnar er og hefur svæðið þróast í jákvæða átt á flestum sviðum síðustu ár. Þetta kemur fram í rannsókn sem RHA – Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri gerði. Í henni eru skoðaðar hagtölur sem varða efnahagsþróun og vinnumarkaðinn á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum. Rannsóknin er samvinnuverkefni RHA og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og var fyrst unnin árið 2014.

Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á haustfundi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar nýverið. Helstu hagtölur sem horft er til eru tekjur, eignir og skuldir einstaklinga, hagnaður fyrirtækja, menntunarstig, atvinnuleysi, verð íbúðarhúsnæðis og gistinætur á hótelum og gistihúsum.

Heimili og fyrirtæki búa við góða fjárhagsstöðu

Jón Þorvaldur segir að í rannsókninni komi fram að hagþróun á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum hafi almennt verið hagfelld fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Hún staðfest það sem fram hafi komið í rannsókninni árið 2014 að Eyjafjörður er ekki láglaunasvæði og að heimili og fyrirtæki búi við góða fjárhagsstöðu. „Við sjáum að tekjur einstaklinga á raunvirði eru svipaðar því sem gerist annars staðar á landinu, eignir fara vaxandi og skuldir lækkandi. Þannig hefur eigið fé einstaklinga á svæðinu aukist jafnt og þétt frá efnahagskreppunni 2008 og er orðið sambærilegt eða hærra en það var fyrir hana. Þá standa fyrirtæki á svæðinu almennt vel samkvæmt rannsókninni og hefur fjárhagsstaða þeirra styrkst.“

Fjármagn að safnast upp á svæðinu

Jón Þorvaldur bendir sérstaklega á að eigið fé fyrirtækja á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum hafi aukist stöðugt frá árinu 2008. Aukningin sé mikil og sé það eiginlega sérstakt rannsóknarefni. „Það virðist vera sem að fjármagn sé að safnast upp á svæðinu þar sem við sjáum að eigið fé, bæði fyrirtækja og einstaklinga fer vaxandi. Fjárfestingargeta ætti því að vera mun meiri núna en áður, sérstaklega hjá fyrirtækjunum. Við það bætist að líklega hefur almenningur aldrei haft jafngóðan aðgang að ódýru lánsfé og nú.“

Hlutfall háskólamenntaðra eykst

Samkvæmt rannsókninni er starfs- og framhaldsmenntun íbúa svæðisins í takt við landsmeðaltalið. Aftur á móti er hlutfall íbúa sem eingöngu hafa grunnskólamenntun hærra en á landinu öllu en það hefur þó lækkað undanfarin ár. Hlutfall háskólamenntaðra hefur aukist, sérstaklega hjá konum í Eyjafirði sem nálgast landsmeðaltalið hratt en staðan hjá körlunum er verri. „Það munar litlu að það sé einn háskólamenntaður karl á hverja tvær háskólamenntaðar konur í Eyjafirði,“ segir Jón Þorvaldur og nefnir að ástæðan sé meðal annars sú að konur séu næstum 80% útskrifaðra nemendur frá Háskólanum á Akureyri. Lengi hafi verið barist fyrir því að auka við nám í skólanum sem höfði til karla, svo sem tækninám.

Fermetraverð mælikvarði á bjartsýni

Rannsóknin tekur einnig til fermetraverðs íbúðarhúsnæðis í helstu þéttbýlisstöðum svæðisins. Fermetraverðið hefur stigið jafnt og þétt frá árinu 2014 og þá sértaklega á Akureyri og Húsavík. Það sé þó talsvert lægra en í Reykjavík. Jón Þorvaldur segir að fermetraverð sé einn besti mælikvarðinn á bjartsýni. „Bjartsýni virðist ríkjandi sé tekið mið af fasteignamarkaði. Það vekur athygli í rannsókninni að hlutfallslegur munur er að verða frekar lítill á milli sérbýlis á Akureyri og í Reykjavík. Meiri munur er þó á verði í fjölbýli.“

Mikilvægt að byggja upp Akureyrarflugvöll

Fleiri jákvæð merki eru um gott efnahagsástand á svæðinu. Atvinnuleysi hefur t.d. minnkað mikið frá árinu 2008 og haldist mjög lágt síðustu 2-3 ár. Þá hefur ferðaþjónustan verið í vexti eins og annarsstaðar á landinu. Aukning hefur verið í fjölda gistinátta í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum síðustu ár. Þó hefur aukningin verið lítil frá árinu 2016. Það telur Jón visst áhyggjuefni en stærsta óunna verkið í atvinnugreininni sé hins vegar að minnka árstíðarsveifluna með fjölgun vetrarferðamanna.  Rannsóknin sýni að árstíðasveiflan hafi skánað á síðustu árum en sé enn mikil og mun meiri en á Höfuðborgarsvæðinu þar sem hún sé nánast horfin. Þetta undirstriki mikilvægi þess að byggja upp Akureyrarflugvöll þar sem hann sé mjög mikilvægur fyrir vetrarferðamennsku.