Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar

Fjölgun ferðamanna og álag á ferðamannastaði á sunnanverðu landinu sem og á  Keflavíkurflugvöll hefur náð þolmörkum. Um þetta eru flestir sammála og því

Millilandaflug um aðra flugvelli landsins

Fjölgun ferðamanna og álag á ferðamannastaði á sunnanverðu landinu sem og á  Keflavíkurflugvöll hefur náð þolmörkum. Um þetta eru flestir sammála og því er brýnt að leita lausna til framtíðar. Landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélög og markaðsstofur á Norður- og Austurlandi sem og á Vestfjörðum hafa tekið höndum saman við að berjast fyrir annarri gátt inn í landið.

Nú þegar stefnt er að allt að 15 milljarða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli virðist ljóst að stefna stjórnvalda sé að byggja þar upp einu millilandagátt landsins. Þetta skýtur skökku við þegar litið er til þróunar undangenginna ára og þeirra krafna sem heyrast í auknum mæli frá erlendum ferðaþjónustuaðilum um aukna fjölbreytni og valkosti í ferðum til Íslands.

Þetta er enn fremur athyglisvert í ljósi yfirlýsinga um nauðsyn þess að dreifa stórauknum ferðamannastraumi um landið, sbr. ferðamálaáætlun, byggðaáætlun 2014 ? 2017 og skýrslu Boston Consulting Group sem var m.a. unnin fyrir Isavia.

Stjórnvöld verða að búa varaflugvelli Keflavíkur á Akureyri og Egilsstöðum þannig úr garði að þeir uppfylli kröfur um þjónustustig vegna aukinnar umferðar, auk þess sem öryggi sjúklinga á stórum svæðum er stefnt í uppnám vegna skorts á viðhaldi flugvallarmannvirkja, eins og nýlegt dæmi frá Alexandersflugvelli sannar. Brýnt er að ríkið (Isavia) tryggi nauðsynlegt fjármagn til þessara framkvæmda og móti sér framtíðarstefnu um millilandaflugvelli. Þeir aðilar sem að þessari ályktun standa eru tilbúnir að taka þátt í þeirri nauðsynlegu stefnumörkun sem þarf að eiga sér stað í íslenskri ferðaþjónustu, ekki síst hvað varðar aðrar fluggáttir inn í landið.

Leiða má að því líkum að með því að hafa Keflavíkurflugvöll í forgrunni sem gátt fyrir millilandaflug séu stjórnvöld að stuðla að byggðaröskun. Þannig er flutningur starfa af landsbyggðinni, m.a. í fiskvinnslu, bein afleiðing þessa en birtist jafnframt í lakri nýtingu fjárfestingu í atvinnuuppbyggingu um land allt umfram 100 km akstursvegalengdar frá höfuðborgarsvæði.

Stjórnvöld stýra því hvernig þessi uppbygging á sér stað. Stjórnvöldum er í lófa lagið að beina aukinni ásókn erlendra flugrekenda í aðrar áttir en til Keflavíkur og þannig auðvelda dreifingu ferðamanna um landið. Á sama tíma myndu þau stuðla að bættum samgöngum við umheiminn frá landinu öllu.

Undirrituð skora hér með á stjórnvöld að beita sér tafarlaust fyrir breyttri stefnu hvað millilandaflug um Ísland varðar og opna þegar í stað aðra gátt inn í landið.

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Samtök Sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra, Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Austurbrú, Markaðsstofa Vestfjarða, Markaðsstofa Norðurlands, Eyþing, Fjórðungssamband Vestfirðinga

_________________________________________________________________

Landsbyggðarvæl?

Í síðustu viku var lagt fram frumvarp til fjárlaga 2015.  Á sama tíma var lagt fram prýðisgott hálfsárs uppgjör Isavia ohf., sem er félag í eigu ríkisins, og er ætlað að annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi.  Þá er eitt af hlutverkum Isavia að tryggja að flugöryggi sé í samræmi við alþjóðlegar öryggiskröfur og aðferðir.

Aukið á ofbeitina á SV-horninu

Í stuttu máli leiðir fjárlagafrumvarpið í ljós áframhaldandi kerfisbundinn niðurskurð til viðhalds og uppbyggingar annarra flugvalla en Keflavíkur, sem varað hefur frá 2007. Nýlega kynnti Isavia áætlanir sínar um 12-15 milljarða framkvæmdir við Leifsstöð og  á Keflavíkurflugvelli til að mæta auknum ferðamannastraumi til landsins.  Þann vöxt ætlar félagið að fjármagna á grundvelli eigin rekstrar.  Á sama tíma veldur hirðuleysi  á öðrum flugvallarmannvirkjum á Íslandi m.a. því að Þingeyrarflugvöllur og þar með Vestfirðir lokast oftar en ella, auk þess sem sögulegt tækifæri til að nýta ókeypis hrat úr Vaðlaheiðargöngum til uppbyggingar flughlaða á Akureyrarflugvelli er að ganga úr greipum.

Til að bíta hausinn af skömminni ályktaði síðan í síðustu viku stjórn Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) vegna bágborins ástands Egilsstaðaflugvallar og gerir kröfu um öryggisúrbætur.  Í þessu ljósi er athyglisvert að setja stórhuga áætlanir Isavia um stækkun Leifsstöðvar  og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar í samhengi. En er forgangsröðunin rétt?  Er hinni gegndarlausu ?ofbeit? ferðamanna á SV-horninu best mætt með því að auðvelda aðgengið enn frekar og fara jafnframt í óhagkvæmar bráðafjárfestingar til verndar viðkvæmum náttúruperlum?

Tölulegar upplýsingar sýna þá skökku mynd  að hinn dæmigerði erlendi ferðamaður fer ekki lengra en 150 km frá flugvelli á SV-horni landsins. Sem þá þýðir ágang og ofbeit á litlum hluta landsins, samfara þenslu og margumræddu ?gullgrafaraæði? á höfuðborgarsvæðinu.  Í landsbyggðunum dregst fjöldi gistinátta saman (hlutfallslega), arðsemi fjárfestinga er minni og skilyrði til atvinnuuppbyggingar eru beinlínis gerð mun lakari.  Það er ekki svo að handan 150 km frá Leifsstöð sé ekkert áhugavert að sjá eða í neinu að fjárfesta, eins og einhverjir virðast halda.  Þvert á móti kemur skýrt fram í nýlegri skýrslu það álit Boston Consulting Group að aukin dreifing ferðamanna um landið sé ein veigamestaforsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi.

Stjórnvöld opni nýja gátt

Þetta mál snýst um hvernig sú bjagaða mynd blasir við að Keflavíkurflugvöllur skuli vera eina gáttin inn og út úr landinu sem stjórnvöld einblína á og heimila fjárfestingu til.  Nýlegt eldgos í Eyjafjallajökli og núverandi gos sýna glögglega nauðsyn þess að flugvellir um land allt séu í góðu ástandi.  Þá er ótalin sú röskun atvinnuhátta sem þessi eingáttastefna felur í sér, en gríðarlegur starfaflutningur í fiskvinnslu hefur átt sér stað af landsbyggðinni til Suðurnesja vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll og aukins vægis fiskútflutnings með flugi.

Hagnaður Isavia á árinu 2013 er hliðstæður þeirri fjárhæð sem varið er til allra flugvalla á Íslandi skv fjárlögum, eða uþb 1,5 ma króna. Góðan rekstrarárangur Isavia má  m.a. rekja til sölu ilmvatns og súkkulaðis í Leifsstöð, auk innheimtu yfirflugs- og lendingargjalda. Keflavíkurflugvöllur er hins vegar eini flugvöllurinn í efnahagsreikningi Isavia og af þeim sökum halda forstjórinn og talsmaður félagsins  því einatt á lofti að vegna alþjóðlegra skuldbindinga sé ekki heimilt að nýta tekjur Isavia til uppbyggingar annarra flugvalla.  Þetta er kannski tæknilega rétt mv. núverandi uppbyggingu Isavia, en þetta er einungis spurning um vilja stjórnvalda að koma fjármálalegri uppbyggingu Isavia þannig fyrir að tilflutningur tekna og gjalda milli flugvalla sé mögulegur. Um það vitna erlend fordæmi  og helst virðist um að kenna þverpólitísku getuleysi og þegjandi samkomulagi um að vitanlega hljóti öll ?alvöru? atvinnuuppbygging að eiga sér stað á SV-horninu. Nægjanlegt sé að henda bitlingum í landsbyggðirnar öðru hverju.

Þetta mál snýst ekki um ölmusur eða bitlinga til einstakra gæluverkefna.  Þetta mál snýst ekki um kjördæmi eða landshluta.  Þetta mál snýst um að skapa lífvænleg búsetu-  og atvinnuskilyrði um land allt.  Stjórnvöld verða að beita sér og stuðla að annarri gátt inn í landið, efla ferðaþjónustu um land allt og létta þannig róður ríkissjóðs verulega og spara umtalsverðar fjárhæðir.      

Krafa landsbyggðanna hlýtur að vera sú að þeim sé sýnd sanngirni og þá spjara þær sig sjálfar.   

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson

Framkvæmdastjóri  Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar (AFE)



Svæði

Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar

     |  
  Sími:  |  kt.
  Netfang: 

Fréttabréf

Skráður þig til að fá fréttabréf okkar sent í tölvupósti.